Íslenski boltinn

„Þurfum að fá á hreint hvað gerðist“

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson.
Óli Stefán Flóventsson, annar þjálfara 2. flokks karla hjá Sindra, segir að forráðamenn félagsins verjist allra fregna af atviki sem átti sér stað í leik liðsins gegn Snæfellsnesi í gær.

Eins og fjallað hefur verið um var þyrla landhelgisgæslunnar kölluð til eftir að leikmaður Snæfellsness hlaut alvarlega höfuðáverka eftir að slagsmál brutust út í leiknum.

„Við hörmum að þetta hafi komið upp og vonum auðvitað að drengurinn nái fullum bata. Það er það sem er efst í okkar huga,“ sagði Óli Stefán í samtali við Vísi í gær en hann var ekki viðstaddur á leiknum.

„Félagið mun taka viðeigandi ráðstafanir þegar við höfum fengið á hreint hvað gerðist. Það sem fram hefur komið í fjölmiðlum hefur ekki fyllilega samræmst frásögnum okkar leikmanna,“ segir hann.

„Leikmenn eru ekki enn allir komnir aftur til Hafnar. Við viljum hitta hópinn fyrst og ræða málin áður en næstu skref verða ákveðin. Þá er lögreglurannsókn enn í fullum gangi.“

Hann segir að forráðamenn Sindra og Víkings í Ólafsvík hafi átt gott samstarf í gegnum tíðina og að hann eigi von á því að það breytist ekki. „Við ætlum að reyna að vinna þetta saman. Vonandi verður hægt að gefa út yfirlýsingu um málið síðar í vikunni.“


Tengdar fréttir

Meiðsli drengsins minni en óttast var

Líðan leikmanns Snæfellsness, sem fluttur var með þyrlu landhelgisgæslunnar á sjúkrahús í gær, er mun betri en talið var í fyrstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×