Starfsmenn slippsins í Reykjavík hafa atvinnu af því þessa dagana að undirbúa skip Hvals hf. undir næstu hvalveiðivertíð. En hvalirnir skaffa líka öðrum hópum tekjur. Á sama tíma og hvalveiðibátarnir voru skrapaðir og málaðir var fundað í Hörpu um hagsmuni þeirra sem hafa atvinnu af því að sýna ferðamönnum hvali.
Talsmenn hvalaskoðunarfyrirtækjanna komu sjónarmiðum sínum meðal annars á framfæri í myndbandi þar sem bent var á að yfir 200 manns ynnu við hvalaskoðun og skiluðu fjórum milljörðum í gjaldeyristekjur á ári.
Aðalatriðið var þó að lýsa áhyggjum vegna hrefnuveiða nærri hvalaskoðunarsvæðum og spyrja oddvita framboðanna í Reykjavík hvort þeir styddu kröfu samtakanna um að bannsvæði hvalveiða á Faxaflóa yrði stækkað. Og viti menn: Allir frambjóðendur sögðust sammála því, - tóku reyndar fram að þeir réðu þessu ekki, heldur sjávarútvegsráðherra.
En þá kom þessi spurning úr sal: Getið þið ekki vísað hvalveiðibátunum burt úr Reykjavíkurhöfn?

Myndband hvalaskoðunarfyrirtækjanna má sjá hér: