Rósa Guðbjartsdóttir oddviti sjálfstæðismanna í Hafnarfirði er bjartsýn á gengi flokksins í komandi bæjarstjóarnarkosningum. Flokkurinn hefur nú fimm menn í bæjarstjórn og er markmiðið að bæta við manni og fá hreinan meirihluta í Hafnarfirði; í fyrsta sinn í sögunni.
„Kosningabaráttan er að byrja af krafti núna, opnir fundir framboða eru að fara í gang og kosningaskrifstofur að opna hver á fætur annarri í og við miðbæinn,“ segir Rósa.
Rósa telur markmiðið að laga fjárhagsstöðu bæjarins, lækka skuldir og bæta atvinnuástandið í bænum. „Við höfum verið að finna fyrir góðum stuðningi í bænum, okkar málflutningur hefur hljómgrunn í bænum og ég er bjartsýn. Stóru málin eru auðvitað fjármál sveitarfélagsins, þau hafa náttúrulega verið gagnrýnd í ýmsum málum, einna mest við endurfjármögnun sveitarfélagsins.“
Rósa gagnrýnir hvernig fjármálastjórnun bæjarfélagsins hefur verið háttað í tíð vinstri manna. „Skuldastaðan er slæm sem hefur aukist í valdatíð vinstrimanna á síðustu 12 árum. Skuldirnar standa nú í um 40 milljörðum sem er um 1.5 milljón á hvert mannsbarn í bænum. Við teljum að frumskilyrðið sé að auka umsvif í bænum, fá fleiri fyrirtæki í bæinn og aukið tekjur bæjarsjóðs. Það verður verkefni nýrrar bæjarstjórnar. Þannig getum við náð niður skuldum. Það er ekki hægt að skera meira niður í grunnþjónsutu sveitarfélagsins.“ segir Rósa.
Þegar Rósa var spurð að því hvort hún væri bæjarstjóraefni flokksins játaði hún því. „Ég er bæjarstjóraefni flokksins ef Sjálfstæðismenn verða í þeirri aðstöðu eftir kosningar, þetta ræðst auðvitað á úrslitum kosninga.“
Allar fréttir af sveitarstjórnarkosningunum 2014 má nálgast á Kosningavef Vísis, visir.is/kosningar
Rósa Guðbjartsdóttir: "Skuldastaðan er slæm“
Sveinn Arnarsson skrifar
