Stjórn Pírata í Kópavogi sagði af sér nú í kvöld eftir langan hitafund. Að því er fram kemur í tilkynningu frá nýjum stjórnarformanni, Einari Páli Gunnarssyni, sagði stjórn af sér eftir að fundur hafði samþykkt að taka á dagskrá vantrauststillögu.
Líkt og Vísir greindi frá fyrr í dag voru margir innan flokksins ósáttir með þá áætlun stjórnarinnar að leggja fram nýjan lista undir nafni Dögunar í stað listans sem ákveðinn var í prófkjöri flokksins. Sagði Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður flokksins þá að stjórnin væri að leggjast gegn framboði Pírata í Kópavogi.
Eftir að umræður um vantrauststillögu höfðu farið fram á fundinum í kvöld kvaddi stjórnin sér hljóðs og tilkynnti þá ákvörðun sína að segja af sér. Nýja bráðabirgðastjórn Pírata í Kópavogi skipa þau Ingólfur Árni Gunnarsson, Einar Páll Gunnarsson, Auður Eiríksdóttir, Gunnar Þór Snorrason og Birgir Örn Einarsson. Var þessi stjórn kosin á veitingastaðnum Cafe Catalína í Hamraborg þar sem fundarmönnum hafði verið vikið úr húsi fyrr um kvöldið, að því er kemur fram í tilkynningu.
Allar fréttir af sveitarstjórnarkosningunum 2014 má nálgast á Kosningavef Vísis, visir.is/kosningar
Stjórn Pírata í Kópavogi segir af sér

Tengdar fréttir

Uppreisn í Pírataskútunni í Kópavogi
Stjórn Pírata í Kópavogi vinnur nú að framboði Dögunar.