Fótbolti

Sara Björk: Alltaf krefjandi að spila á móti Þýskalandi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
„Þetta mun verða í sjöunda skipti sem ég spila á Algarve-mótinu,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir, miðjumaður kvennalandsliðsins í fótbolta, sem mætir Þýskalandi í fyrsta leik Algarve-mótsins á morgun.

„Þær voru búnar að fara 2-3 áður en ég tók þátt. Þetta er gott mót fyrir okkur og verðugir andstæðingar. Þetta er sá tími sem við erum mest saman. Núna fáum við 10-11 daga saman og nokkra leiki sem er góður undirbúningur fyrir næstu leiki.“

Sara segir fína stemningu í hópnum en spennan að myndast fyrir fyrsta leik. Hún vonast til að stelpurnar geti staðið í Evrópumeisturum Þjóðverja.

„Stemningin er bara fín. Við erum bara búnar að vera í einn dag saman en stemningin er alltaf góð og spennan fyrir leiknum mikil.“

„Þetta eru allt rosalega góð lið og góðir leiki fyrir okkur að spila. Við erum með nýja leikmenn og enn að læra inn á hverja aðra. Fyrsti leikurinn er á móti Þýskalandi en vonandi getum við staðið aðeins í þeim.“

„Það er alltaf krefjandi að spila á móti þeim en ef við spilum rétt þá getum við vonandi náð góðum úrslitum,“ segir Sara Björk Gunnarsdóttir.

Allt viðtalið sem tekið var af Hilmari Þór Guðmundssyni, starfsmanni KSÍ, á Algarve má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×