Herrarnir skulu klæðast gráu en dömurnar skósíðum buxum og stórum peysum. Klæðaburður fólks tekur breytingum samhliða árstíðaskiptunum. Í haust og vetur verða nokkrir tískustraumar sérlega áberandi og fór Fréttablaðið yfir nokkra þeirra.
Hvað herrana varðar verður grái liturinn í forgrunni í vetur, sem og vínrauðir og dökkbláir litatónar. Bomber-jakkinn svonefndi heldur vinsældum sínum inn í mitt næsta ár. Gönguskór í öllum stærðum og gerðum verða einnig áberandi og sé tekið mið af tískusýningum stóru tískuhúsanna má nota þann fótabúnað hvort heldur við jakkaföt eða gallabuxur.

Þegar kemur að dömutískunni eru skósíðar og hólkvíðar dragtarbuxur sérlega vinsælar, bæði til hversdagsbrúks og sem spariklæðnaður.
Dökkblár litur, eða „navy“ eins og hann kallast á ensku, verður sömuleiðis áberandi í vetur. Sá litur gæti hentað þeim sem kjósa helst svartar flíkur því dökkblá flík mun lífga upp á heildarútlitið án þess að draga að sér of mikla athygli.
Stórar peysur, og þá sérstaklega kragapeysur, sáust einnig víða á tískupöllunum fyrir veturinn. Slíkar peysur koma sér sannarlega vel á köldum, íslenskum vetrardögum.