Fótbolti

Enginn betri í undanúrslitum bikarsins en Framarar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framarar tryggðu sér sæti í bikarúrslitum í átjánda sinn í sögu félagsins þegar liðið vann 2-1 sigur á Breiðabliki á Laugardalsvellinum á sunnudaginn. Mörk Kristins Inga Halldórssonar og Hólmbert Friðjónssonar í fyrri hálfleik nægðu til að koma Safamýrapiltum í úrslitaleikinn en Árni Vilhjálmsson minnkaði muninn fyrir Blika í lokin.

Fram jafnaði með þessu met ÍA með því að komast í sinn átjánda bikarúrslitaleik en það er ekkert félag sem státar af betra sigurhlutfalli í undanúrslitunum en einmitt Framarar.

Framliðið hefur unnið 18 af 24 undanúrslitaleikjum sínum í bikarnum sem þýðir 75 prósent sigurhlutfall og aðeins betra sigurhlutfall en hjá Skagamönnum (72 prósent, 18 af 25).

Framarar hafa ennfremur unnið 15 af 16 síðustu undanúrslitaleikjum sínum í bikarnum en eina tapið í undanúrslitum frá árinu 1973 kom á móti KR árið 2010.

Það er allt aðra sögu að segja af Blikum sem eru neðstir á listanum yfir besta sigurhlutfall í undanúrslitum af þeim liðum sem hafa spilað tíu undanúrslitaleiki eða fleiri. Breiðablik hefur nú tapað 9 af 11 undanúrslitaleikjum sínum í bikarkeppni karla.

Sigurhlutfall félaga í undanúrslitum bikarsins(Lágmark 10 leikir)

75 prósent - Fram (18/24)

72 prósent - ÍA (18/25)

63 prósent - Valur (12/19)

62 prósent - ÍBV (10/16)

61 prósent - KR (17/28)

43 prósent - Keflavík (9/21)

38 prósent - FH (5/13)

18 prósent - Breiðablik (2/11)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×