Björgun prinsessanna Brynhildur Björnsdóttir skrifar 16. mars 2013 06:00 „Engin er eins sæt og góð og Dimmalimmalimm. Og engin er eins hýr og rjóð, stór, sterk, klár, dugleg, og skemmtileg og Dimmalimmalimm.“ Svona breyti ég ævintýrum fyrir litlu prinsessurnar mínar áður en þær fara að sofa á kvöldin. Auðvitað eru dætur mínar ekki konungbornar en það þykir bæði jákvætt og lýsa væntumþykju að kalla litlar stúlkur prinsessur og prinsessurnar í Disneymyndunum eru til að mynda gríðarlega vel markaðssettur hópur fyrirmynda þar sem allar litlar stelpur geta fundið samsvörun og eftirlæti. Flestar lenda þessar Disneyprinsessur í erfiðum, jafnvel vonlausum, aðstæðum og þeirra eina von er að prins komi og bjargi þeim. Dvergarnir og smádýrin eru þess ekki umkomin að bjarga lífi Mjallhvítar, og góðu álfkonurnar mega sín einskis þegar Þyrnirós er í vanda. Hafmeyjan Aríel bjargar reyndar prinsinum en það er bara hann sem getur veitt það sem hún þráir heitast. Ekki nema von að sex ára séu stúlkur farnar að velta fyrir sér hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að tryggja sér svona prins, ef til dæmis skyldi hrökkva ofan í þær eða þær stinga sig eða vilji taka þátt í samfélaginu. Hvað þá ef fyrir þeim ætti að liggja að þræla allan daginn fyrir litla umbun og virðingu eins og Öskubuska. Til að ná í prins þarf að tileinka sér prinsessulegar dyggðir: vera góð við dýr, söngelsk, dugleg að þrífa og umfram allt grönn og falleg. Ef prinsessa uppfyllir ekki alveg öll þessi skilyrði er annar möguleiki að kyssa dýr, til dæmis svan eða frosk, nú eða finna hreinræktað skrímsli sem er ekki bara ljótt heldur líka vont og andstyggilegt, og vera svo dásamlega góð við það að það breytist í prins að lokum, eins og í Fríða og Dýrið. Í meistararitgerð um birtingarmyndir kvenna í Disneymyndum bendir Maríanna Clara Lúthersdóttir á rannsókn sem segir að því meira sem litlar stelpur horfa á barnaefni í sjónvarpi og kvikmyndum, því minni trú hafi þær á framtíðarmöguleikum sínum og því meira sem litlir drengir horfa á slíkt efni, því minni trú hafi þeir á getu stúlkna. Þessar niðurstöður eru dapurlegar en ættu ekki að koma neinum á óvart. Og þess vegna var það góð stund þegar sjö ára dóttir mín kom hlaupandi inn í herbergi þar sem ég breytti ævintýrum fyrir litlu systur hennar og sýndi mér mynd úr Andrésblaðinu sem hún var að lesa: „Sjáðu, mamma, löggustjórinn er stelpa. Hún bjargar sér alveg sjálf!“ Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Brynhildur Björnsdóttir Mest lesið Óheiðarlegur óskalisti Sjálfstæðisflokksins Finnur Ricart Andrason Skoðun Blóðmeramálið að kosningamáli Árni Stefán Árnason Skoðun Kæru smiðir, hárgreiðslufólk og píparar! Víðir Reynisson Skoðun 21 blár Jón Pétur Zimsen Skoðun Kæri húsasmiður og oddviti Samfylkingarnar í Suðurkjördæmi Kristinn Karl Brynjarsson Skoðun Að sætta sig við brot á samkomulagi eða ekki Jón Ágúst Eyjólfsson Skoðun Stjórnlyndi og stöðnun Þórður Magnússon Skoðun Kvíðakynslóðin Daðey Albertsdóttir,Silja Björk Egilsdóttir Skoðun Inngilding – nýyrði sem enginn skilur? Miriam Petra Ómarsdóttir Awad Skoðun Vantar fleiri lyftara í heilbrigðiskerfið? Ragna Sigurðardóttir Skoðun
„Engin er eins sæt og góð og Dimmalimmalimm. Og engin er eins hýr og rjóð, stór, sterk, klár, dugleg, og skemmtileg og Dimmalimmalimm.“ Svona breyti ég ævintýrum fyrir litlu prinsessurnar mínar áður en þær fara að sofa á kvöldin. Auðvitað eru dætur mínar ekki konungbornar en það þykir bæði jákvætt og lýsa væntumþykju að kalla litlar stúlkur prinsessur og prinsessurnar í Disneymyndunum eru til að mynda gríðarlega vel markaðssettur hópur fyrirmynda þar sem allar litlar stelpur geta fundið samsvörun og eftirlæti. Flestar lenda þessar Disneyprinsessur í erfiðum, jafnvel vonlausum, aðstæðum og þeirra eina von er að prins komi og bjargi þeim. Dvergarnir og smádýrin eru þess ekki umkomin að bjarga lífi Mjallhvítar, og góðu álfkonurnar mega sín einskis þegar Þyrnirós er í vanda. Hafmeyjan Aríel bjargar reyndar prinsinum en það er bara hann sem getur veitt það sem hún þráir heitast. Ekki nema von að sex ára séu stúlkur farnar að velta fyrir sér hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að tryggja sér svona prins, ef til dæmis skyldi hrökkva ofan í þær eða þær stinga sig eða vilji taka þátt í samfélaginu. Hvað þá ef fyrir þeim ætti að liggja að þræla allan daginn fyrir litla umbun og virðingu eins og Öskubuska. Til að ná í prins þarf að tileinka sér prinsessulegar dyggðir: vera góð við dýr, söngelsk, dugleg að þrífa og umfram allt grönn og falleg. Ef prinsessa uppfyllir ekki alveg öll þessi skilyrði er annar möguleiki að kyssa dýr, til dæmis svan eða frosk, nú eða finna hreinræktað skrímsli sem er ekki bara ljótt heldur líka vont og andstyggilegt, og vera svo dásamlega góð við það að það breytist í prins að lokum, eins og í Fríða og Dýrið. Í meistararitgerð um birtingarmyndir kvenna í Disneymyndum bendir Maríanna Clara Lúthersdóttir á rannsókn sem segir að því meira sem litlar stelpur horfa á barnaefni í sjónvarpi og kvikmyndum, því minni trú hafi þær á framtíðarmöguleikum sínum og því meira sem litlir drengir horfa á slíkt efni, því minni trú hafi þeir á getu stúlkna. Þessar niðurstöður eru dapurlegar en ættu ekki að koma neinum á óvart. Og þess vegna var það góð stund þegar sjö ára dóttir mín kom hlaupandi inn í herbergi þar sem ég breytti ævintýrum fyrir litlu systur hennar og sýndi mér mynd úr Andrésblaðinu sem hún var að lesa: „Sjáðu, mamma, löggustjórinn er stelpa. Hún bjargar sér alveg sjálf!“