Kona sem fréttastofa hafði samband við vegna sms í skjölunum sem láku eftir árásina í nótt segist hissa á að þetta geti gerst.
Tilfinningaþrungið sms sem hún sendi þáverandi kærasta sínum í kjölfar þess að upp komst um framhjáhald hans er meðal þess sem sjá má í skjölunum.
„Ég er aðallega hissa, maður trúir aldrei að neitt svona geti komið fyrir mann sjálfan. Síðan finnst mér auðvitað ótrúlegt að einhver hafi áhuga á því að gera þetta og mér finnst miður að einhver hafi áhuga á því að lesa sms eða póst um einkalíf annarra,“ segir konan.
Sms-ið sem um ræðir er frá árinu 2011 og konan segir að blessunarlega hafi það enga þýðingu fyrir líf hennar í dag.
„Mér finnst líka asnalegt að Vodafone geymi svona lagað. Ég ætlaði sjálf að skoða gömul skilaboð inni á síðunni minni um daginn en hafði ekki aðgang að þeim, eða fann þau að minnsta kosti ekki,“ segir konan að lokum.

