Fótbolti

Leiknir Reykjavíkurmeistari eftir sigur á KR | Myndir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Myndir / Valgarður Gíslason
Leiknir varð í kvöld Reykjavíkurmeistari karla í knattspyrnu eftir sigur á KR-ingum í úrslitaleik, 3-2.

Leikurinn var fjörugur eins og tölurnar bera með sér en dómarinn Magnús Þórisson var mikið í sviðsljósinu í kvöld.

Atli Sigurjónsson kom KR yfir í lok fyrri hálfleiks eftir undirbúning Gary Martin en Egill Atlason, fyrrum KR-ingur, jafnaði metin fyrir Leikni í upphafi þess síðari.

Þá gerðist umdeilt atvik er Hannes Þór Halldórsson, markvörður KR, fékk að líta beint rautt spjald fyrir að brjóta á Ólafi Hrannari Kristjánssyni. Víti var dæmt og kom Hilmar Árni Halldórsson Leiknismönnum yfir.

KR-ingar jöfnuðu svo metin úr annarri vítaspyrnu sem var dæmd á Brynjar Hlöðversson fyrir að handleika knöttinn innan teigs. Bjarni Guðjónsson var þar að verki.

Allt útlit var fyrir að úrslit leiksins myndu ráðast í vítaspyrnukeppni en þá komust Leiknismenn í hættulega sókn. Henni lauk með því að Sævar Freyr Alexandersson skoraði með föstu skoti úr vítateignum, þar sem hann stóð einn og óvaldaður.

Sævar Freyr hafði komið inn á sem varamaður í síðari hálfleik en hann er bróðir Freys Alexanderssonar, annars þjálfara Leiknis. Freyr hafði sjálfur fengið reisupassann hjá Magnúsi dómara fyrir að mótmæla dómgæslu.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Leiknis sem félagið verður Reykjavíkurmeistari í knattspyrnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×