Fótbolti

Casillas ætlar ekki að fara í fýlu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Iker Casillas.
Iker Casillas. Mynd/Nordic Photos/Getty
Iker Casillas var settur á bekkinn í síðasta leik Real Madrid sem vakti upp mikið fjölmiðlafár í Madrid enda á ferðinni einn vinsælasti leikmaður félagsins, fyrirliði þess og fastamaður síðan á síðustu öld. Fyrirliði spænska landsliðsins ætlar ekki að leggja árar í bát þrátt fyrir þessa ákvörðun Jose Mourinho um að láta hann dúsa á bekknum.

Mourinho hélt því fram að þetta hefði verið taktísk ákvörðun en Antonio Adan stóð í markinu í síðasta leik Real Madrid á árinu þar sem liðið tapaði 2-3 á móti Malaga og lenti 16 stigum á eftir Barcelona.

„Ég ætla að halda áfram að æfa vel og vinna mér aftur sæti í liðinu. Mitt markmið er að þjálfarinn velji mig í liðið í næsta leik," sagði Iker Casillas og bætti við:

„Mér líður vel en ég er ekki vél. Ég þarf að æfa vel á hverjum degi og það koma bæði góðir og slæmir dagar," sagði Casillas en hann vill ekkert gefa upp um ástæðurnar fyrir því að Mourinho setti hann á bekkinn.

„Madrid skiptir alltaf meira máli en Casillas. Þjálfarinn verður að standa og falla með sinni ákvörðun," sagði Casillas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×