Fótbolti

Ná strákarnir í sjaldgæfan sigur í dag?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson skoraði tvö af fjórum mörkum Íslands í síðustu tveimur vináttuleikjum á útivelli en báðir töpuðust.
Kolbeinn Sigþórsson skoraði tvö af fjórum mörkum Íslands í síðustu tveimur vináttuleikjum á útivelli en báðir töpuðust. Mydn/AFP
Íslenska karlalandsliðið verður í eldlínunni í Andorra þar sem liðið leikur lokaleik sinn á árinu 2012. Um er að ræða vináttulandsleik á móti þjóðinni í 203. sæti á heimslistanum og liði sem hefur ekki unnið í síðustu 57 leikjum sínum.

Þetta er tíundi landsleikur Íslands á fyrsta ári liðsins undir stjórn Lars Lagerbäck og allt til alls til að enda viðburðaríkt ár með því að ná í sjaldgæfan sigur í vináttulandsleik á útivelli. Íslenska landsliðið hefur tapað síðustu sex vináttulandsleikjum sínum á útivelli og ekki unnið í slíkum leik í tíu leikjum eða síðan 19. nóvember 2008.

Hér fyrir neðan má sjá stutt yfirlit yfir sex síðustu vináttulandsleiki Íslands á útivelli en í fjórum síðustu var liðið undir stjórn Lars Lagerbäck.

Sex töp í röð í vináttulandsleikjum erlendis30. maí 2012 Svíþjóð 2-3 tap

- Svíþjóð var þarna 114 sætum ofar á heimslistanum (17-131)

- Svíar komust í 2-0 eftir aðeins 14 mínútna leik

- Kolbeinn Sigþórsson og Hallgrímur Jónasson skoruðu mörkin

- Hallgrímur minnkaði muninn í uppbótartíma

27. maí 2012 Frakkland 2-3 tap

- Frakkland var þarna 115 sætum ofar á heimslistanum (16-131)

- Ísland komst í 2-0 eftir 34 mínútur

- Birkir Bjarnason og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörkin

- Frakkar skoruðu þrjú mörk í seinni hálfleik á 52., 85. og 87. mínútu.

29. febrúar 2012 Svartfjallaland 1-2 tap

- Svartfjallaland var þarna 52 sætum ofar á heimslistanum (51-103)

- Alfreð Finnbogason jafnaði metin á 79. mínútu

- Svartfjallaland skoraði sigurmarkið á 87. mínútu

- Staðan var markalaus í hálfleik

24. febrúar 2012 Japan 1-3 tap

- Fyrsti leikurinn undir stjórn Lars Lagerbäck

- Japan var þarna 73 sætum ofar á heimslistanum (30-103)

- Arnór Smárason minnkaði muninn úr víti í uppbótartíma

- Japan komst í 1-0 á 2. mínútu

10. ágúst 2011 Ungverjaland 0-4 tap

- Ungverjaland var þarna 74 sætum ofar á heimslistanum (47-121)

- Stærsta tapið undir stjórn Ólafs Jóhannessonar.

- Eini vináttulandsleikur ársins

17. nóvember 2010 Ísrael 2-3 tap

- Ísrael var þarna 54 sætum ofar á heimslistanum (56-110)

- Ísrael komst í 3-0 eftir 27 mínútur

- Kolbeinn Sigþórsson og Alfreð Finnbogason skoruðu mörkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×