Fótbolti

Tvö tímamótamörk hjá Margréti Láru í einu sparki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir er með 69 mörk í 86 landsleikjum, þar af 50 í keppnisleikjum
Margrét Lára Viðarsdóttir er með 69 mörk í 86 landsleikjum, þar af 50 í keppnisleikjum Mynd/Daníel
Margrét Lára Viðarsdóttir valdi réttan tíma fyrir tímamótamark með íslenska landsliðinu þegar hún kom íslenska liðinu í 1-0 í 3-2 sigri á Úkraínu í seinni umspilsleiknum á Laugardalsvellinum í fyrrakvöld. Margrét Lára náði með því tveimur tímamótamörkum með einu sparki því þetta var 50. mark hennar í keppnisleik með landsliðinu og 30. markið hennar á Laugardalsvellinum.

Margrét Lára lék sinn fyrsta alvörulandsleik á móti Ungverjum í júní 2003 sem jafnframt var hennar fyrsti landsleikur. Hún skoraði fjórum mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður og hefur síðan skorað 50 mörk í 52 landsleikjum í undankeppni EM (31 mark í 32 leikjum), undankeppni HM (19 mörk í 17 leikjum) eða úrslitakeppni EM.

Margrét Lára hefur jafnframt skorað yfir tíu mörk í síðustu þremur undankeppnum íslenska landsliðsins, 12 mörk í undankeppni EM 2009, 10 mörk í undankeppni HM 2011 og loks 11 mörk í undankeppni EM 2013. Aðeins Þjóðverjinn Célia Okoyino da Mbabi (17 mörk) skoraði fleiri mörk í þessari undankeppni.

Margrét Lára hefur einnig verið afar dugleg að finna netið á þjóðarleikvanginum í Laugardalnum en markið í fyrrakvöld var 30. markið sem hún skorar í 23 leikjum sínum á Laugardalsvellinum. Allir þeir leikir hafa verið í undankeppni stórmóts og hún hefur skorað í Dalnum á öllum árum síðasta áratuginn nema 2004 og 2010.

Mörk Margrétar Láru í leikjum í HM eða EM:

Undank. EM 2005 - 10 leikir/8 mörk

Undank. HM 2007 - 8/9

Undank. EM 2009 - 10/12

Úrslitak. EM 2009 - 3/0

Undank. HM 2011 - 9/10

Undank. EM 2013 - 12/11




Fleiri fréttir

Sjá meira


×