Fótbolti

Sara Björk braut oftast af sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir
Sara Björk Gunnarsdóttir Mynd/Daníel
Landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir lét finna fyrir sér í undankeppni EM 2013 sem lauk með glæsilegum 3-2 sigri íslensku stelpnanna á Úkraínu á Laugardalsvellinum í gær.

Sara Björk var sá leikmaður sem braut oftast af sér í undankeppninni samkvæmt tölfræði UEFA en alls fékk þessi kraftmikli miðjumaður dæmdar á sig 29 aukaspyrnur í leikjunum tólf eða fjórum fleiri en næsti leikmaður.

Margrét Lára Viðarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir voru líka efstar í tölfræðiþáttum hjá UEFA því Margrét Lára var oftast dæmd rangstæð og Hólmfríður skaut oftast að marki.

Sara Björk lék í samtals 1058 mínútur og fékk því dæmda á sig aukaspyrnu á 37 mínútna fresti. Sara fékk samt aðeins eitt spjald á sig og slapp því við leikbann því spjöld í undankeppninni telja ekki í úrslitakeppninni næsta sumar.

Hólmfríður Magnúsdóttir náði 25 skotum í leikjunum tólf eða jafnmikið og Þjóðverjinn Célia Okoyino da Mbabi sem var markahæst í undankeppninni. Margrét Lára skaut einu sinni sjaldnar en var aftur á móti sú sem var oftast dæmd rangstæð eða 21 sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×