Golf

Masters 2012: Tiger Woods ætlar sér enn sigur | er í 40.-46. sæti

Tiger Woods.
Tiger Woods. AP
„Ég lagði mig fram og reyndi mitt besta við hvert einasta högg. Halda einbeitingunni og slá næsta högg eins og ég ætlaði mér – það gekk nánast aldrei upp en ég var að reyna eins og ég gat," sagði Tiger Woods eftir að hafa leikið á 75 höggum á öðrum keppnisdegi Mastersmótsins í golfi. Tiger, sem er fjórfaldur sigurvegari á þessu risamóti, er samtals á +3 í 40.-46. sæti mótsins þegar kepni er hálfnuð.

„Sveiflan var ekki í lagi og ég reyndi að vera þolinmóður, en það voru nokkrir ljósir punktar við hringinn. Ég var tvo undir pari eftir þrjár holur en ég klúðraði því."

Tiger er enn vongóður um að geta gert atlögu að titlinum en Fred Couples og Jason Dufner eru efstir á -5 og er Tiger 8 höggum á eftir þeim. „Það sem einkennir þetta mót er að þeir sem komast í gegnum niðurskurðinn eiga allir möguleika á sigri. Það hefur gerst að sigurvegarinn hefur unnið upp 5-6 högg á lokadeginum. Ég stefni á að bæta stöðu mína á þriðja hringnum og á sunnudeginum getur allt gerst," sagði Tiger í sjónvarpsviðtali eftir hringinn í gær.

Tölfræðin er ekki með Tiger Woods að þessu sinni. Sigurvegarinn á Mastersmótinu hefur aldrei verið neðar en í 25. sæti þegar keppni er hálfnuð. Tiger Woods þarf því að skrifa nýjan kafla í sögu Mastersmótsins ætli hann sér að ná að landa sigri í fimmta sinn á ferlinum.


Tengdar fréttir

Masters 2012: Couples og Dufner efstir | Tiger langt frá sínu besta

Hinn 52 ára gamli Fred Couples stal senunni á öðrum keppnisdegi Mastersmótsins í golfi. Bandaríkjamaðurinn sem sigraði á þessu risamóti árið 1992 lék eins og unglingur þar sem hann fékk sjö fugla og endaði hann á 67 höggum eða -5. Hann deilir efsta sætinu með landa sínum Jason Dufner sem lék á 70 höggum á öðrum keppnisdeginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×