Golf

Tinna byrjar ekki vel á lokaúrtökumótinu á Spáni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tinna Jóhannsdóttir úr Keili.
Tinna Jóhannsdóttir úr Keili. Mynd/Daníel
Tinna Jóhannsdóttir úr Keili náði ekki að spila sitt besta golf á fyrsta hringnum í lokaúrtökumótinu fyrir Evrópumótaröð kvenna sem fram fer á La Manga á Spáni. Tinna lék fyrstu 18 holurnar á mótinu á 76 höggum eða fimm höggum yfir pari.

Tinna fékk tvo fugla á par fjórum holum á seinni hringnum en var síðan með einn skramba og fimm skolla á hringnum. Fjórir af skollunum komu á fyrri níu holunum þar sem hún lék á fjórum höggum yfir pari.

Tinna er í 80. sæti af 101 keppanda eftir fyrstu 18 holurnar en aðeins fimmtíu efstu kylfingarnir komast í gegnum niðurskurðinn á morgun. Tinna þarf því að spila sitt allra besta golf á morgun ætli hún að spila á tveimur síðustu dögunum.

Tinna er nú þegar þremur höggum á eftir þeim kylfingum sem eru í 39. til 54. sæti. 30 efstu kylfingarnir á þessu móti tryggja sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni á næstu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×