Golf

Óvæntur en bandarískur sigur á PGA-meistaramótinu í golfi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nordic Photos/AFP
Bandaríkjamaðurinn Keegan Bradley vann dramatískan sigur á PGA-meistaramótinu í golfi í Atlanta í Georgíuríki í Bandaríkjunum á sunnudag.

Bradley hafði betur í umspili gegn landa sínum Jason Dufner. Leiknar voru þrjár holur í umspilinu og sigraði Bradley með einu höggi.

Dufner virtist kominn með aðra höndina á titilinn þegar fjórar holur voru eftir á lokahringnum. Ekki versnaði útlitið fyrir hann þegar Bradley spilaði 15. holuna á þremur höggum yfir pari.

Dufner fór hins vegar á taugum á síðustu holunum. Upphafshögg hans á 15. holunni fór í vatnið og hann fékk þrjá skolla í röð svo fara þurfti í umspil.

Bradley setti niður rúmlega metra pútt fyrir fugli á fyrstu holunni í umspilinu og Dufner fékk skolla á þeirri annarri. Fugl hjá Dufner á síðustu holunni dugði ekki til því Bradley paraði og vann sigur.

Sigur Bradley batt enda á lengstu bið Bandaríkjamanna eftir titli á stórmóti í háa herrans tíð. Kani hafði ekki unnið sigur á stórmóti í golfi frá því Phil Mickelson vann Masters-mótið á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×