Íslenski boltinn

Guðjón í óformlegum viðræðum við KA

Hörður Magnússon skrifar

Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 er mikil áhugi á því hjá áhrifamiklum velunnurum KA að Guðjón Þórðarson taki við liðinu.

Undanfarna daga hafa óformlegar viðræður við Guðjón Þórðarson farið fram um að hann taki við KA.

Stjórn knattspyrnudeildar hefur ekki tekið afstöðu í málinu en þeir vita af fjárfestingahópi sem eru dyggir stuðningsmenn félagsins. Þeir vilja fá Guðjón til starfa og þar með rjúfa kyrrstöðu félagsins. 

Guðjón þjálfaði Akureyrarliðið í tvö ár á sínum tíma og gerði KA að Íslandsmeisturum árið 1989. KA siglir lygnan sjó í fyrstu deildinni í dag en samningur Deans Martin þjálfara rennur út í næsta mánuði.

Bjarni Áskelsson, formaður knattspyrnudeildar KA, sagði við fréttastofu í dag að ekkert hafi verið ákveðið í þjálfaramálum félagsins en þau yrðu rædd á stjórnarfundi á föstudag.

Ekki náðist í Guðjón Þórðarson við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×