Viðskipti innlent

Sýslumaður metur fasteignaverð 30% lægra en fasteignamat

Sýslumaður metur virði fasteigna allt að 30 prósentum lægra en opinbert fasteignamat. Ef mat sýslumanns gefur rétta mynd af virði fasteigna leysa aðgerðir bankanna ekki skuldavanda fólks.

Seðlabankinn gerir í spám sínum ráð fyrir að húsnæðisverð hér á landi lækki að raunvirði um 33 prósent á næstu tveimur árum.

Mat á markaðsvirði fasteigna er í mikilli óvissu í dag, en svokallaðir makaskiptasamningar hafa lyft verðinu upp og jafnvel gefið óraunhæfar væntingar um fasteignaverð eftir hrunið.

Fréttastofa hefur undir höndum gögn frá Sýslumanni sem sýna að 150 fermetra raðhús í Mosfellsbæ er metið af honum á 20 milljónir króna. Fasteignamat eignarinnar er hins vegar 27 og hálf milljón. Mismunurinn á verðmati sýslumanns og fasteignamati er þar með 27%.

Það sem vekur athygli við þetta er að bankarnir styðjast að miklu leyti við fasteignamat þegar veðsetningarhlutföll skuldara eru metin. Svokölluð höfuðstólsleiðrétting, eða 110% leiðin, tekur þannig mið af fasteignamatinu.

Tökum dæmi um eign sem er metin samkvæmt fasteignamati á 30 milljónir. Gerum ráð fyrir að hún sé yfirveðsett og eigendur fengju höfuðstólsleiðréttingu. Lánið yrði þá eftir leiðréttingu 33 milljónir. Ef hins vegar markaðurinn er hruninn eins og sýslumaður virðist telja samkvæmt áðurnefndu mati, situr fólk uppi með 150% yfirveðsetningu þrátt fyrir leiðréttingu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×