

Erfitt gæti orðið fyrir landsdóm að komast að annarri niðurstöðu en sýknu fari svo að fyrrverandi ráðherrar verði dregnir fyrir dóminn. Þetta er mat Sigurðar Líndal, lagaprófessors, en hann segir að refsiheimildir í lögum séu ekki nægilega skýrar.
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst ekki tjá sig í dag um skýrslu þingmannanefndar sem lögð verður fram seinnipartinn. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, ætlar ekki að tjá sig um skýrsluna fyrr en hún hefur séð hvað kemur fram í henni.
Þingmenn allra flokka eru í þessum töluðu orðum að koma sér fyrir á þingflokksfundum niðrá Alþingi. Þar fá þeir munnlega skýrslu frá nefndarmönnum í þingmannanefnd sem ætlað var að móta viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Skýrslan verður ekki gerð opinber fyrr en klukkan fimm.
Það skýrist í dag hvort einhverjir fyrrverandi ráðherrar verða kærðir til Landsdóms en þingmannanefnd sem fjallað hefur um rannsóknarskýrslu Alþingis lauk störfum í gær. Niðurstöður nefndarinnar verða kynntar þingflokkunum klukkan þrjú í dag og klukkan fimm verður skýrsla nefndarinnar gerð opinber.
Þingnefnd sem Alþingi skipaði til að fjalla um mögulega ábyrgð ráðherra vegna efnahagshrunsins árið 2008 mun skila Alþingi niðurstöðu sinni klukkan 17 í dag. Nefndin getur lagt það til við Alþingi að ákveðnir ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm.