Viðskipti innlent

Afturkallar greiðslu upp á fimm milljarða

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Skiptastjóri Milestone mun afturkalla greiðslur upp á 5,2 milljarða króna til Ingunnar Wernersdóttur, systur Wernersbræðra. Þeir keyptu Ingunni út með láni frá Milestone upp á rúma 5 milljarða króna en greiddu það aldrei upp.

Ingunn Wernersdóttir, systir Karls og Steingríms Wernerssona sem voru helstu eigendur Milestone, fékk samtals 5,2 milljarða króna í greiðslur frá Milestone á árunum 2006-2007. Um var að ræða greiðslur vegna kaupa bræðranna á hlut hennar í Milestone. Félag bræðranna fékk lán hjá Milestone til að kaupa Ingunni út.

Nánast ekkert hefur verið greitt af umræddri skuld bræðranna við Milestone. Á fundi með kröfuhöfum í dag tilkynnti skiptastjóri að til standi að höfða um 20 riftunarmál. Munu kaupin á hlut Ingunnar vera eitt af þeim málum.

Hún vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa náði tali af henni. Samkvæmt heimildum mun einnig koma til greina að höfða riftunarmál gegn öðrum eigendum og stjórnendum vegna endurgreiðslu á lánum sem félagið veitti til hlutabréfakaupa. Þá munu tíu önnur riftunarmál, auk þeirra tuttugu sem kynnt voru í dag, vera til skoðunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×