Íslenski boltinn

Tómas Ingi: Þeir vildu þetta meira

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Tómas Ingi Tómasson.
Tómas Ingi Tómasson. Fréttablaðið/Valli
Leiknismenn unnu HK naumlega á heimavelli sínum í dag en sigurinn var síst of stór. Þeir skoruðu aðeins eitt mark sem kom þeim þó aftur í toppsætið, með Víkingum.

HK er aftur á móti neðarlega og ekki lausir við falldrauginn þó ólíklegt sé að þeir fari niður. Til þess þurfa þeir að tapa stórt báðum leikjunum og bæði Grótta og Fjarðabyggð að vinna sína leiki.

Tómas Ingi Tómasson, þjálfari HK, var ekki par sáttur með spilamennsku sinna manna í dag.

"Þeir sem vilja þetta meira í dag, þeir fá þetta. Leiknismenn eru að keppa að því að komast upp í úrvalsdeild og þeir hafa sýnt það og sannað að þeir eru mjög sterkir, þá sérstaklega varnarlega en þeir hafa aðeins fengið á sig fimmtán mörk í sumar."

"Svo eru þeir með öskufljóta menn þarna frammi sem eru mjög góðir, og verða góðir á næsta ári ef þeir komast upp."

"Leikurinn var eiginlega hálfgerð hörmung. Við erum í veseni með einfaldar sendingar og móttökur. Boltinn er sendur útaf hvað eftir annað hjá báðum liðum."

"Ég skil Leiknismenn að vera pínulítið stressaða en ég skil ekki okkur. Við erum ekki lausir úr fallbaráttu og ég hefði viljað fá meira frá mínu liði"

"Síðasta sendingin okkar, og meira að segja þar síðasta sending og sendingin þar áður klikkuðu líka. Það datt ekkert með okkur í dag og við áttum ekki meira skilið en við fáum," sagði Tómas Ingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×