Viðskipti innlent

Fær tíu daga til þess að greiða 800 milljónir

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Magnús Þorsteinsson þarf að greiða tæpar átta hundruð milljónir króna fyrir ógreiddan skatt af hagnaði við sölu á hlut hans í Samson eignarhaldsfélagi árið 2005. Hann hefur 10 daga til að greiða skuldina.

Málavextir eru þeir að Mirol Investment, félag í eigu Magnúsar Þorsteinssonar á Bresku jómfrúareyjum seldi á árinu 2005 eignarhlut sinn í Samson eignarhaldsfélagi sem var stærsti hluthafi Landsbankans til félags í Lúxemborg sem einnig er í eigu Magnúsar. Það félag seldi síðan hlutinn í Samson skömmu síðar til Samsonar sjálfs.

Magnús hagnaðist verulega á sölunni en greiddi ekki skatt af hagnaðinum hér á landi. Skattyfirvöld töldu að salan væri skattskyld á Íslandi og að flutningurinn frá Bresku jómfrúareyjum til Lúxemborgar væri gerður til málamynda í því skyni að koma sölunni inn í félag sem nyti verndar samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Lúxemborgar.

Salan ætti að skattleggjast hjá félaginu á Bresku jómfrúareyjum. Skattlagningin nam tæpum milljarði króna auk viðurlaga. Magnús kærði málið til yfirskattanefndar sem hefur nú úrskurðað að honum beri að greiða 785 milljónir króna. Hann hefur tíu daga til að greiða skuldina en hann getur þó einnig áfrýjað úrskurðinum til dómstóla.

Þar sem Magnús er búsettur í Rússlandi og hefur verið lýstur gjaldþrota hér á landi gætu skattyfirvöld þurft að leita til Rússlands til að innheimta kröfuna, þ.e. ef Magnús á einhverjar eignir þar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×