Viðskipti innlent

Gæti þurft að afskrifa 400 milljónir hjá nýráðnum starfsmanni

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Óljóst er hvað Íslandsbanki þarf að afskrifa mikið fé vegna 800 milljón króna lánveitinga til tveggja fyrrverandi stjórnenda Teymis. Annar þeirra hefur nú verið ráðinn til að stýra eignaumsýslufélagi Íslandsbanka.

Ólafur Þór Jóhannesson, fyrrverandi fjármálastjóri Teymis, hefur nú verið ráðinn framkvæmdastjóri Miðengis, eignaumsýslufélags Íslandsbanka. Ólafur Þór var ráðinn úr hópi sjötíu umsækjenda, en ákvörðun um ráðningu hans var tekin af stjórn Miðengis. Formaður stjórnar er Gunnar Svavarsson, fyrrverandi alþingismaður. Fjöldi atvinnulausra viðskipta- og hagfræðinga hleypur á hundruðum en mikið af hæfu fólki þræðir göturnar án atvinnu í dag eftir bankahrunið.

Árni Pétur Jónsson, sem var forstjóri Teymis og Ólafur Þór fengu 400 milljónir króna hvor að láni hjá Íslandsbanka í gegnum eignarhaldsfélög sín, TT1 og TT2, til að kaupa hlutabréf í Teymi, alls 70 milljónir hluta að nafnvirði í ágúst 2007. Þessi lán voru veitt án persónulegrar ábyrgðar og Teymi þurfti að taka yfir skuldir þessara félaga þegar fyrirtækið var afskráð úr Kauphöllinni í október 2008.

Gunnar Svavarsson, stjórnarformaður Miðengis, sagði í samtali við fréttastofu að lán til Ólafs Þórs hefði ekki haft áhrif á ráðningu hans.

Við ráðningarferlið hafi stjórn félagsins farið ítarlega yfir öll gögn sem snertu félag sem var í eigu Ólafs Þórs. Hann sagði að Ólafur Þór hefði verið metinn hæfastur í starfið af stjórn Miðengis og þess vegna hafi hann verið ráðinn.
























Fleiri fréttir

Sjá meira


×