Lífið

Vildi hætta í leiklistinni tvítug

Vildi hætta Mila Kunis var orðin svo rík þegar hún var tvítug að hún íhugaði að hætta í leiklist.nordicphotos/getty
Vildi hætta Mila Kunis var orðin svo rík þegar hún var tvítug að hún íhugaði að hætta í leiklist.nordicphotos/getty

Leikkonan Mila Kunis, sem sló í gegn í sjónvarpsþáttunum That '70s Show, íhugaði að segja skilið við leiklistina þegar hún var aðeins tvítug að aldri.

Kunis hafði árið 2003 þénað nóg til að geta lifað góðu lífi það sem eftir var án þess að þurfa að vinna framar. Hún hafði þá unnið sem fyrirsæta og leikkona í ellefu ár og íhugaði að segja endanlega skilið við leiklistina.

„Margir átta sig ekki á því að maður verður mun ríkari af því að leika í sjónvarpsþáttum en af því að leika í kvikmyndum. Þar eru fastar tekjur í boði fyrir auðvelt starf. Ég var tvítug og summan inni á bankareikningnum mínum var nógu stór til að endast mér út ævina. Ég íhugaði að hætta í leiklist og snúa mér að öðrum hlutum," sagði leikkonan í viðtali við tímaritið Nylon.

„Þetta er erfiður bransi og lítið um öryggi í honum og ég var ekki viss um að ég gæti þolað það til lengdar." Kunis hætti þó við því hún sagðist ekki geta hugsað sér að vinna við nokkuð annað. Kunis fer með aukahlutverk í kvikmyndinni The Black Swan og þótti frammistaða hennar í myndinni svo góð að hún gæti átt von á óskarstilnefningu á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×