Lífið

Amerískar sjónvarpsstjörnur slógu í gegn í Reykjavík

Penn Badgley og Shawn Pyfrom nutu mikillar athygli um helgina og slegist var um myndatökur með þeim.
Penn Badgley og Shawn Pyfrom nutu mikillar athygli um helgina og slegist var um myndatökur með þeim.

„Þeir voru mjög kurteisir og virtust bara vera venjulegir strákar að skemmta sér," segir Hallur Dan Johansen hjá veitinga-og skemmtistaðnum Austur. Penn Badgley, stjarnan úr Gossip Girl, og Shawn Pyfrom, úr Aðþrengdum eiginkonum, ollu með nærveru sinni hálfgerðri múgæsingu meðal reykvískra stúlkna um helgina.

Badgley hafði auglýst komu sína til Íslands í glanstímaritinu Us Weekly eins og Fréttablaðið greindi frá en Shawn Pyfrom hefur verið á ferðalagi um Evrópu.

Starfsmaður á Vegamótum sem Fréttablaðið ræddi við sagði að fjölmargar stúlkur hefðu gert sér ferð á staðinn þegar kvissaðist út á Facebook að stjörnurnar tvær sætu þar að snæðingi á laugardeginum.

Vinirnir tveir reyndust frekar matgrannir og deildu með sér hamborgara af matseðli. Ekki réðu allar stúlkurnar við þá geðshræringu sem fylgir því að vera í návist slíkra stórstjarna og þegar einni þeirra var meinað að taka mynd af sér með stjörnunum brast hún í grát, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins.

Strákarnir fóru meðal annars með starfsliði Austur á sunnudeginum í skoðunarferð að Gullfoss og Geysi.

Badgley og Pyfrom héldu aðallega til á Austur og var Pyfrom orðinn slíkur heimalingur þar að hann tók þátt í að þrífa barinn eftir lokun á föstudagskvöldinu. Hallur Dan segir þá Badgley og Pyfrom hafa notið athyglinnar frá hinu kyninu og dæmi voru um að stúlkur hafi beðið í röðinni á laugardagskvöldinu í þrjá tíma fyrir utan staðinn til þess eins að komast í tæri við þá Penn og Shawn.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins varð ágangurinn svo mikill inná staðnum á tímabili að stjörnurnar tvær neyddust til að flýja útum bakdyr á annarri hæð Austurs og niður brunastiga en þá voru trylltir aðdáendur farnir að rífa í fötin þeirra. Til þeirra sást á B5 í einkaherberginu þar en biðröð myndaðist af stelpum sem vildu fá að taka myndir af sér með þeim.

Miklir kærleikar tókust á með leikurunum tveim og starfsfólki Austurs og samkvæmt Halli Dan fóru stjörnurnar ásamt nokkrum úr starfsliðinu í skoðunarferð og kíktu á Gullfoss og Geysi og svo út að borða. Heimildir úr þeim herbúðum herma að drengirnir hafi verið himinlifandi með dvölina og ætli að koma aftur til Íslands við fyrsta tækifæri.

freyrgigja@frettabladid.is

kristjana@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×