Viðskipti erlent

Loftslagsráðstefnan hafði slæm áhrif á rekstur Tívolí

Hinn þekkti ferðamannastaður Tívolí í Kaupmannahöfn varð illa fyrir barðinu á loftslagsráðstefnunni COP 15 í síðasta mánuði. Forráðmenn Tívolí telja að þeir hafi misst frá sér um 100.000 gesti á jólatímabilinu hjá Tívolí af völdum ráðstefnunnar.

Í frétt um málið á börsen.dk segir að alls hafi 783.000 manns heimsótt Tívolí yfir jólatímabilið í fyrra á móti 910.000 gestum á sama tímabili árið 2008. Sökum þessarar fækkunar hefur Tívolí dregið úr væntingum sínum um hagnaðinn á síðasta ári.

Í tilkynningu frá Tívolí segir að fækkun gesta yfir jólin í fyrra skrifist að hluta til á að staðurinn var opinn í færri daga en árið 2008. Að stórum hluta hafi loftslagsráðstefnan COP 15 svo átt þátt í fækkuninni og telur stjórn Tívolí að sökum hennar hafi gestunum fækkað um 100.000 miðað við árið áður.

Í heild heimsóttu 3,86 milljón manns Tívolí á síðasta ári en gestir þar voru 3,97 milljónir talsins árið 2008.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×