Innlent

Kostnaður flugfélaga hleypur á milljónum

óvissa Fjórtán flugvélar Icelandair og fjórar á vegum Iceland Express eiga áætlaða brottför frá Keflavíkurflugvelli í dag. Raskist áætlun vegna gossins eiga farþegar sem verða strandaglópar ríkan rétt.Fréttablaðið/ Pjetur
óvissa Fjórtán flugvélar Icelandair og fjórar á vegum Iceland Express eiga áætlaða brottför frá Keflavíkurflugvelli í dag. Raskist áætlun vegna gossins eiga farþegar sem verða strandaglópar ríkan rétt.Fréttablaðið/ Pjetur

Þær þúsundir flugfarþega, sem ekki komust leiðar sinnar með íslensku flugfélögunum í gær vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, eiga rétt á endurgreiðslu eða nýjum farseðlum. Ferðatryggingar gilda hins vegar ekki um tafir vegna eldgosa og náttúruhamfara og tjón, svo sem hótelherbergi eða bílaleigubíla sem ekki er hægt að nýta á áfangastað, fæst því ekki bætt.

Icelandair útvegaði ferðamönnum sem urðu strandaglópar á Keflavíkurflugvelli í gær gistingu og máltíðir. Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi segir að þetta sé skylt að gera samkvæmt Evrópureglum um réttindi neytenda.

„Við vitum ekki hvað þetta mun kosta," segir Guðjón Arngrímsson upplýsingafulltrúi en kostnaður félagsins væri mikill og hlypi á milljónum.

Kristín Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Iceland Express, segir að farþegar tveggja véla félagsins hefðu orðið strandaglópar en heimild var veitt fyrir flugi þess til Alicante síðdegis í gær.

„Þetta er ekki eitthvað sem menn geta vátryggt sig gegn," segir Agnar Óskarsson, deildarstjóri hjá VÍS, um það hvort viðskiptavinir geti fengið bætt tjón vegna þjónustu sem þeir hafa greitt fyrir erlendis en geta ekki nýtt þar sem þeir komast ekki í flug á réttum tíma. Engar tryggingar bæta tjón ferðamanna vegna náttúruhamfara á borð við eldgos, segir Agnar.

peturg@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×