Aðstoðarmaður borgarstjóra segir það ekki rétt að hefðbundnir hverfafundir borgarstjóra hafi verið blásnir af heldur verði þeir haldnir síðar á árinu, segir Magnús Þór Gylfason, aðstoðarmaður borgarstjóra. Hann bendir á að í tilvitnuðum tölvupósti í fréttinni sjálfri sem birtist hér á Vísi í morgun komi fram að áætlun hafi verið breytt. Það sé því ranglega ályktað að fundirnir verði ekki haldnir í ár.
„Þeir verða haldnir síðar á árinu, samkvæmt ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, borgarstjóra, sem fannst ekki rétt að efna til hefðbundinna hverfafunda borgarstjóra á kostnað borgarbúa nú stuttu fyrir kosningar.
Hanna Birna mun eiga fundi með íbúum í hverfum borgarinnar í aðdraganda kosninga en ekki á kostnað borgarinnar.
Hanna Birna hefur átt fjölmarga fundi í hverfum borgarinnar og hún og Óskar Bergsson, formaður borgarráðs áttu á síðasta ári fundi í öllum þjónustumiðstöðvum hverfa borgarinnar með fulltrúum skóla, íþróttafélaga, lögreglu og annarra lykilaðila í hverfum. Þá var nýjung að halda Hugmyndaþing í haust í Ráðhúsi Reykjavíkur og auk þess hafa verið haldnir fundir með hverfisráðum, nú síðast opinn fundur með hverfisráði miðborgar.
Undanfarið hafa verið stigin mikilvæg skref hjá Reykjavíkurborgar í að efla hverfin með verkefnum eins og 1,2 og Reykjavík og síðast með Kjóstu verkefni í þínu hverfi í desember á síðasta ári þar sem borgarbúum gafst tækifæri til að forgangsraða smærri framkvæmdum og viðhaldsverkefnum í hverju hverfi fyrir afgreiðslu fjárhagsáætlunar. Í framhaldi af umræðum á Hugmyndaþingi og fram komnum óskum íbúa er ætlunin að auka þjónustu við borgarbúa í hverfunum enn betur á næstunni, m.a. með því að auka rafræna þjónustu, upplýsingagátt um þjónustu, framkvæmdir og úrbætur, framgang lýðræðisverkefnisins og sérstökum á ábendingarvef fyrir hvert hverfi," segir í tölvupósti frá aðstoðarmanni borgarstjóra.
