Veðmálafyrirtækið Betsson ætlar ekki að láta komandi sveitstjórnarkosningar á Íslandi framhjá sér fara. Meðal annars er hægt að veðja á hver verði næsti borgarstjóri í Reykjavík. Líklegast er að Dagur eða Hanna Birna hljóti nafnbótina samkvæmt veðmálasíðunni.
Veðmálafyrirtækið Betsson er hvað þekktast fyrir að standa fyrir veðmálum á íþróttatengdum viðburðum. Þó er hægt að veðja á ýmislegt og nú eru það kosningarnar sem eru mönnum ofarlega í huga. Hægt er að leggja undir á úrslit í hinum ýmsu sveitarfélögum en það er Reykjavík sem vekur hvað mesta athygli.
Samkvæmt Betsson eru mestu líkur á því að kjörsókn í Reykjavík verði á bilinu 65-70 prósent eða 80-85% en stuðullinn þar er 6. Minnstar líkur eru á að 70-75% Reykvíkinga mæti á kjörstað, en þar er stuðullinn 3.
Besti flokkurinn er Betsson mönnum ofarlega í huga en hægt er að veðja á hversu mikið fylgi flokkurinn fær. Þeir sem telja að hann fái 5-10% fylgi gætu grætt vel því stuðullinn þar er fimmtán á meðan hann er fimm á 35-40% fylgi.
Loks er veðmál um hver verði næsti borgarstjóri í Reykjavík. Mestar líkur eru taldar á því að það verði oddviti Samfylkingarinnar eða Sjálfstæðisflokksins en stuðullinn er þrír á Dag og Hönnu Birnu.
Stuðullinn fjórir er á Jón Gnarr og átta á einhvern utanaðkomandi. Litlar líkur eru taldar á að Sóley Tómasdóttir verði næsti borgarstjóri, en þeir sem veðja á það fá stuðulinn fimmtán.