Viðskipti erlent

Japan Airlines gjaldþrota, skuldar tæpa 2.000 milljarða

Sjötta stærsta flugfélag heimsins, Japan Airlines eða JAL, hefur lýst sig gjaldþrota. Skuldirnar nema um 16 milljörðum dollara eða tæpum 2.000 milljörðum kr.

Erlendir fjölmiðlar vitna í frétt frá Kyodo fréttastofunni í nótt þar sem segir að JAL hafi ákveðið að óska eftir gjaldþrotameðferð. Engar upplýsingar hafa borist frá stjórn JAL um málið. Þess er vænst að formlega verði tilkynnt um málið nú fyrir hádegið.

Japönsk stjórnvöld hafa bjargað fjárhag JAL í þrígang á undanförnum árum en hafa ekki gefið í skyn að þau ætli að gera slíkt í fjórða sinn.

Í síðustu viku sagði JAL upp 15.600 manns eða um þriðjungi af starfsfólki sínu í tilraun til að snúa taprekstrinum við. Það reyndist ekki nægilegt.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×