Viðskipti erlent

Framtíð Aston Martin óljós, sjóðir eigenda eru tómir

Framtíð breska bílaframleiðendans Aston Martin er óljós þar sem einn aðaleigandi fyrirtækisins hefur viðurkennt að hann á í erfiðleikum með að endurfjármagna skuldir sínar. Eigandinn sem hér um ræðir er fjárfestingasjóðurinn Investment Dar sem er í eigu hins opinbera í Kúwait.

Í frétt um málið í breska blaðinu Guardian segir að Investment Dar hafi gefið út yfirlýsingu um að sjóðurinn hafi náð samkomulagi við lánadrottna sína um frystingu á afborgunum og kröfum þeirra, Sjóðirinn mun hafa orðið hart úti í fjármálakreppunni.

Aston Martin var selt af Ford bílaverksmiðjunum árið 2007 þegar fjármálabólan náði hámarki. Investment Dar keypti þá helmingshlut í Aston Martin en aðir kaupendur voru ökuþórinn Dave Richards, fjárfestirinn John Singers og Adeem Investment. Aston Martin er heimsþekkt vörumerki þar sem James Bond ekur yfirleitt á þessari bílategund í myndum sínum.

Kaupverðið nam 925 milljónum punda og fékk Investment Dar sambankalán á sharia-kjörum í Kúwait fyrir sínum hlut í Aston Martin upp á 393 milljónir punda. Um 100 milljónir punda af því eru nú í vanskilum og hefur seðlabanki Kuwait skipað umsjónarmann með rekstri sjóðsins. Investment Dar hefur samið við Credit Suisse um aðstoð við endurfjármögnun sjóðsins.

Frá því að kreppan skall á hefur Aston Martin barist í bökkum eins og flestir aðrir bílaframleiðendur í heiminum. Framleiðandinn hefur sagt upp 600 manns, eða þriðjungi af starfsmönnum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×