Viðskipti erlent

Aurum ræðir við Landsbankann um skuldbreytingu

Aurum Holding á nú í viðræðum við Landsbankann um að breyta 20 milljón punda, eða 4 milljarða kr., skuld félagsins við bankann í hlutafé. Baugur átti 37,8% í Aurum en PwC hefur tekið við stjórn þess hlutar fyrir hönd skilanefndar Landsbankans.

Í frétt um málið á vefsíðunni This is Money segir að samkvæmt heimildum síðunnar er mögulegt að samningar um þessa skuldbreytingu nái fram strax í næsta mánuði. Aurum Holding rekur úra- og skartgripaverslanakeðjurnar Goldsmiths, Mappin & Webb og Watches of Switzerland.

Sem stendur er Aurum að endurskoða eignasafn sitt og endurskipuleggja yfirstjórn sína. Talsmenn félagsins vildu ekki tjá sig um þær breytingar við This is Money.

Skilanefnd Landsbankans leysti til sín þessa eign Baugs í febrúar s.l. og í mars sögðu þrír Íslendingar, þau Kristín Jóhannesdóttir, Pálmi Haraldsson og Pétur Már Halldórsson, sig úr stjórn Aurum Holdings.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×