Viðskipti erlent

Blóðbað meðal svissneskra úraframleiðenda

Sala á lúxusvörum hefur hrapað í kreppunni og nú finna starfsmenn hjá svissneskum úraframleiðendum fyrir því. Talið er að minnkandi sala á úrum muni kosta um 3.000 störf í þessum iðnaði í Sviss.

Í umfjöllun um málið á business.dk segir að verst hafa úraframleiðendurnir farið út úr markaðinum í Bandaríkjunum þar sem salan á úrum þeirra hefur minnkað um helming.

Megnið af lúxusúrum í Sviss eru framleidd hjá litlum fyrirtækjum. Af 600 fyrirtækjum á þessu sviði eru um helmingur með 100 starfsmenn eða færri og aðeins 10% eru með 500 starfsmenn eða fleiri.

Samkvæmt tölum frá Samtökum svissneska úraiðnaðarins hefur sala á svissneskum úrum á fyrstu sex mánuðum ársins minnkað um 26%. Stærri framleiðendur hafa farið betur út úr samdrættinum en þeir minni og þannig hefur salan hjá þeim stærsta, Swatch Group, aðeins minnkað um 15%.

Nicholas Hayeck forstjóri Swatch segir að fyrirtækið ætli að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda starfsfólki sínu með kreppan stendur yfir. Hinsvegar hefur Zenith ákveðið að segja upp 70 af 250 starfsmönnum sínum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×