Viðskipti erlent

Findus í Bretlandi rís úr öskunni eftir Landsbankaskellinn

Verksmiðja Findus í Newcastle er nú að rísa upp úr öskunni en reksturinn komst í þrot skömmu eftir áramótin þegar verksmiðjan brann og kostaði það 430 starfsmenn vinnu sína. Landsbankinn var aðalviðskiptabanki Findus í Bretlandi og þegar bankinn fór í þrot fylgdi Findus með í fallinu.

 

Samkvæmt frétt um málið í Financial Times hefur verksmiðjan verið seld nokkrum af stjórnendum hennar. Nýtt félag, Longbenton Foods, mun síðan taka við rekstrinum snemma á næsta ári og er reiknað með að 230 starfsmenn verði ráðnir að nýju.

 

 

Fyrrverandi eigandi Findus í Bretlandi var norski athafnamaðurinn Geir Frantzen. Hann þykir litríkur og hefur oft komið við sögu í slúðurdálkum breskra dagblaða. Er það einkum vegna sambands hans við Söru Ferguson hertogaynju af York og fyrrum eiginkonu Andrew prins.

 

Findus hefur sérhæft sig í framleiðslu á tilbúnum réttum, einkum úr fiski en vörumerkið er í eigu Wallenberg fjölskyldunnar í Svíþjóð. Geir Frantzen keypti réttinn að merkinu fyrir Bretland árið 2005.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×