Viðskipti erlent

Helmingur áhugasamra á kaupum Ratiopharm dettur út

Samkvæmt frétt á Reuters er talið að allt að helmingur þeirra 10 aðila sem áhuga höfðu á að bjóða í þýska samheitalyfjafyrirtækið Ratiopharm muni detta úr hópnum fyrir 3. desember n.k. Reuters hefur áður sagt að Actavis sé meðal líklegra kaupenda.

Í frétt um málið á Reuters í dag segir að þeir sem áhuga hafa á kaupum á Ratiopharm hafa verið beðnir um að skila óbindandi tilboðum í fyrirtækið fyrir 3. desember. Þegar ljóst var að Ratiopharm færi í sölu í upphafi þessa mánaðar meldaði tugur annarra lyfjafyrirtækja og fjárfesta sig tilbúinn að kaupa fyrirtækið fyrir allt að yfir 2 milljörðum evra eða hátt í 400 milljarða kr.

Samkvæmt heimildum Reuters er líklegt að 3 til 5 af hinum áhugasömu kaupendum muni ekki senda inn tilboð fyrir 3. desember og að þeir sem eftir eru muni leggja fram hærri tilboð en áður voru nefnd. Jafnvel er talið að tilboð upp á 3 milljarða evra muni koma fram sem er nálægt því sem eigendur Ratiopharm vilja fá í sinn hlut.

Meðal þeirra lyfjafyrirtækja sem keppa við Actavis um þýska fyrirtækið eru Teva, Mylan, Sanofi-Aventis og Sinopharm. Lyfjarisinn Pfizer hefur einnig verið orðaður við kaupin

Töluverður áhugi er meðal almennra fjárfestingarfélaga á að kaupa Ratiopharm og segir Reuters að í þeim hópi sé TPG, Advent í samvinnu við Goldman Sachs, Permira og KKR.

Talsmaður Ratiopharm segir að selja eigi fyrirtækið til að grynnka á skuldum eigenda þess sem eru Merckle fjölskyldan þýska.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×