Viðskipti erlent

Danir óttast innbrotabylgju um jólin

Jólin eru veisla fyrir innbrotsþjófa í Danmörku þar sem um helmingur þjóðarinnar er að heiman á aðfangadag. Í ár óttast Danir innbrotabylgju um jólin að því er segir í frétt á börsen.dk.

Dönsk tryggingarfélög undirbúa sig nú fyrir innbrotabylgjuna en samkvæmt fréttabréfinu forsikringogpension.dk hefur árið í ár einkennst af mikilli fjölgun innbrota í landinu.

Reiknað er með að brotist verði inn á 475 heimili á aðfangadag í Danmörku og þá tölu má síðan tvöfalda ef jóladagurinn er tekinn með. Á venjulegum degi eru hinsvegar um 120 innbrot framin að jafnaði í landinu.

Christian Sködt sérfræðingur hjá upplýsingaráði dönsku tryggingarfélaganna segir að það sé aldrei hægt að tryggja sig 100% gegn innbroti. Hinsvegar sé hægt að gera þjófunum erfitt fyrir. Til dæmis með því að láta ljósin loga innandyra þegar maður fer í fjölskylduboðið og hafa kveikt á útvarpi/sjónvarpi eða biðja nágranna sína, ef þeir eru heimavið, að líta til með húsi sínu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×