Viðskipti erlent

E24.se: Persson í vafasömum félagsskap Björgólfs Thors

Göran Persson fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar verður stjórnarformaður félagsins Scandinavian Biogas og segir vefsíðan E24.se að þar sé Persson kominn í vafasamann félagskap fjármálamanna sem hafi slæmt orð á sér. Meðal þeirra sem nefndir eru til sögunnar er Björgólfur Thor Björgólfsson en félag hans, Novator, er stærsti eigandi Scandinavian Biogas með 24% hlut.

Scandinavian Biogas vinnur eldsneyti úr lífrænum úrgangi en samkvæmt frétt E24.se mun hin umhverfisvæna ásýnd félagsins hafa ráðið því að Persson ákvað að taka stöðu stjórnarformanns þegar honum stóð staðan til boða.

Í fréttinni er rætt um Anders Tuvlind sem situr í stjórn Scandinavian Biogas en hann var rekinn frá Carnegie bankanum í Svíþjóð nokkru áður en sá banki komst í þrot. Tuvlind hefur verið til rannsóknar hjá sænska fjármálaeftirlitinu í tengslum við hlut sinn í svokölluðu Mats O. Sundquist hneyksli innan bankans en það hneyksli var eitt af því sem felldi Carnegie síðasta vetur.

Hvað Björgólf Thor varðar segir E24.se að hann hafi fengið slæmt umtal í fjölmiðlum í kjölfar þess að bæði Landsbankinn og Straumur komust í þrot í fjármálakreppunni. Björgólfur sé talin hafa átt hlut að máli í efnahagshruni Íslands á síðasta ári.

Þá nefnir E24.se til sögunnar fjármálamanninn Johan Bohman sem á það líkt með Tuvlind að vera til rannsóknar hjá sænska fjármálaeftirlitinu. Auk þess er efnahagsbrotadeild sænsku lögreglunnar einnig með hann í rannsókn. Rannsóknin beinist að meintum fjársvikum fjárfestingarfélagsins Bohman & Lindström í viðskiptum við sænskan lífeyrissjóð. Bohman átti 60% hlut í Bohman & Lindström.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×