Viðskipti erlent

Elvis ekki lengur tekjuhæstur látinna einstaklinga

 

Elvis Persley er ekki lengur tekjuhæstur látinna einstaklinga í heiminum. Tískukóngurinn Yves Saint Laurent hefur velt honum úr sessi. Raunar er Elvis dottinn niður í fjórða sæti listans en Michael Jackson kemur sterkur inn í þriðja sætið.

 

Samkvæmt árlegum lista Forbes tímaritsins um tekjur látinni einstaklinga námu tekjurnar af dánarbúi Yves Saint Laurent um 350 milljónum dollara í ár, eða tæpum 44 milljörðum kr. Stór hluti af þeim tekjum eru vegna sölu á fasteignum tískukóngsins sem lést úr krabbameini á síðasta ári.

 

Í öðru sæti eru tónlistarmennirnir Rodgers og Hammerstein en dánarbú þeirra skilaði tekjum upp á 235 milljónir dollara í ár. Tekjurnar eru vegna höfundarréttargreiðslna af verkum þeirra. Oscar Hammerstein lést árið 1960 og Richard Rodgers árið 1979.

 

Í þriðja sæti er síðan Michael Jackson sem lést í júní í ár en tekjur dánarbúsins nema 90 milljónum dollara í ár. Forbes reiknar fastlega með að Jackson nái fyrsta sæti listans á næsta ári.

 

Elvis er síðan í fjórða sæti en dánarbú rokkkóngsins skilaði 55 milljón dollara tekjum í ár. Elvis lést í ágúst 1977. Forbes reiknar með að hann nái betra sæti á listanum á næsta ári.

 

Þeir sem skipa topp tíu listan að öðru leyti eru rithöfundurinn J.R.R. Tolkien en dánarbú hans skilaði 50 milljónum dollara. Það var einkum kvikmyndun á Hringadróttinssögu Tolkien sem skilar þessum tekjum. Tolkien lést árið 1973.

 

Síðan koma Charles Schultz, skapari teiknimyndahetjunnar Charlie Brown, tónlistarmaðurinn John Lennon, dr. Suess eða Theodor Geisel skapari Köttsins með höttinn, vísindamaðurinn Albert Einstein og rithöfundurinn Michael Crichton.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×