Þýskir fjölmiðlar halda því fram í dag að Louis van Gaal, þjálfari Bayern München, hafi rekið Luca Toni úr liðinu.
Toni lét hafa eftir sér í ítölskum fjölmiðlum í gær að hann væri búinn að fá sig fullsaddan af van Gaal. Hann hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum með Bayern síðan að van Gaal tók við í sumar.
Fyrr í mánuðinum var Toni tekinn af velli í hálfleik og strunsaði hann í kjölfarið heim. Honum var refsað vegna atviksins.
En nú er van Gaal búinn að fá nóg af látunum í Toni, að því að kemur fram í þýskum fjölmiðlum.
Allt útlit er fyrir að Toni verður seldur í janúar en hann hefur helst verið orðaður við Roma á Ítalíu og West Ham á Englandi.