Tyrkneski landsliðsmaðurinn Hamit Altintop hjá Bayern Munchen leikur væntanlega ekki meira með liði sínu á leiktíðinni og er tæpur fyrir EM í sumar eftir að hafa fótbrotnað í leik Tyrkja og Hvít-Rússa í gær.
Miðjumaðurinn sterki hefur staðið sig vel hjá Bayern í vetur og Ottmar Hitzfeld þjálfari liðsins sagði þetta mikið áfall fyrir Bayern.
Þetta eru þó ekki síður slæm tíðindi fyrir Tyrki, sem leika í riðli með Portúgal, Tékklandi og Sviss á EM í sumar.
Búist er við því að Altintop þurfi í það minnsta sjö vikur til að jafna sig af meiðslunum, en hann fór í aðgerð í dag.