Xaxi var hetja Barcelona sem gerði 1-1 jafntefli við Valencia í fyrri leik liðanna í undanúrslitum spænsku bikarkeppninnar í kvöld.
David Villa kom Valencia yfir á 69. mínútu leiksins og var allt útlit fyrir að það yrði eina mark leiksins.
Á fjórðu mínútu uppbótartímans héldu Börsungar í sókn þar sem Samuel Eto'o prjónaði sig í gegnum vörn Valencia og átt skot að marki. Timo Hildebrand, markvörður Valencia, varði skotið en Xavi tók frákastið og skoraði með föstu skoti.
Leikmenn Valencia mótmæltu því reyndar mjög að markið fengi að standa því þeir vildu meina að Eto'o hefði handleikið knöttinn áður en hann skaut að marki. Endursýning í sjónvarpi sýndi að þeir höfðu talsvert til síns máls.
Liðin mætast öðru sinni þann 20. mars næstkomandi, þá á heimavelli Valencia.
Getafe og Racing eigast við í hinum undanúrslitaviðureigninni annað kvöld.
Fótbolti