Íþróttamálaráðherra Spánar, Jaime Lissavetzky, sagðist þess fullviss um að Spánn fengi að spila á EM 2008 þrátt fyrir hótanir Sepp Blatter, forseta FIFA.
Spænska ríkisstjórnin hefur skipað öllum íþróttasamböndum landsins sem ekki tengjast Ólympíuhreyfingunni að halda kosningar fyrir Ólympíuleikana í Peking í sumar.
Blatter sagði í gær að ef yfirvöld ætluðu að skipta sér af málefnum knattspyrnunnar myndi FIFA útiloka spænsk landslið og félagslið frá alþjóðlegum keppnum, svo sem EM 2008, Meistaradeild Evrópu og UEFA-bikarkeppninni.
„Ég virði skoðanir hvers og eins en ver sjálfstæði ríkisstjórnar Spánar, lög hennar og þörfina fyrir lýðræðislegum og gegnsæum kosningum í öllum sérsamböndum," sagði Lessavetzky og bætti við að aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru ekki á skjön við lög og reglur FIFA.
Fótbolti