Spútniklið HSV í þýsku úrvalsdeildinni náði í dag þriggja stiga forystu á toppi deildarinnar með naumum 2-1 sigri á Cottbus.
Glæsilegur skalli frá Mladen Petric í blálokin tryggði lærisveinum Martin Jol öll stigin í leik sem virtist dæmdur til að enda með jafntefli.
Hamburg hefur nú hlotið 16 stig og er á toppnum, en annað spútniklið, Hoffenheim, og Stuttgart koma næst með 13 stig. Hoffenheim lagði Frankfurt 2-1 heima í gær og Stuttgart lagði Bremen nokkuð óvænt 4-1.
Schalke er í fimmta sæti eftir 2-2 jafntefli við Wolfsburg þar sem Kevin Kuranyi skoraði bæði mörk Schalke. Liðið hefur 12 stig líkt og Dortmund sem gerði 1-1 jafntefli við Hannover.