Þýski landsliðsframherjinn Lukas Podolski hjá Bayern Munchen hefur verið gagnrýndur mikið síðan hann var keyptur til félagsins árið 2006. Hann hefur nú fengið þau skilaboð að ef hann bæti ekki leik sinn fljótlega eigi hann ekki framtíð fyrir sér hjá félaginu.
Podolski hefur aðeins skorað 4 mörk í síðustu 22 leikjum sínum fyrir Bayern og mönnum eins og Uli Hoeness er nóg boðið. "Lukas er nú búinn að vera hérna í eitt og hálft ár og það er eins gott að hann sanni sig í vetur. Hann á mikið verk fyrir höndum í að sanna sig, því hann hefur ekkert gert hingað til. Hann verður að breyta viðhorfi sínu undir eins, því annars á hann enga framtíð fyrir sér hérna," sagði Hoeness.