Joan Laporta, forseti Barcelona, segir að Brasilíumaðurinn Ronaldinho hafi lofað sér að verða orðinn klár í slaginn á ný þegar liðið mætir Stuttgart í Meistaradeildinni í næstu viku. Ronaldinho er meiddur á kálfa og missir væntanlega af leikjum gegn Zaragoza annað kvöld og Levante um helgina.
"Hann þjáist núna af því hann er meiddur. Hann er að klára endurhæfinguna en missir þó líklega af næstu tveimur deildarleikjum. Hann lofaði mér hinsvegar að hann yrði orðinn klár gegn Stuttgart í næstu viku. Það er mikilvægt að allir standi við bakið á honum því hann er nú maðurinn sem kom Barcelona á kortið aftur," sagði forsetinn, en Brasilíumaðurinn hefur verið gagnrýndur nokkuð undanfarið fyrir slappa frammistöðu.
Leikur Sevilla og Espanyol verður sýndur beint á Sýn Extra í kvöld klukkan 18:55 og verður svo sýndur á Sýn að loknum leik Reading og Liverpool í enska deildarbikarnum.
Annað kvöld verða svo tveir leikir í beinni á rásum Sýnar úr spænsku deildinni og þar eru á ferðinni tveir stórleikir. Barcelona - Zaragoza er á Sýn Extra klukkan 19:55 og Real Madrid - Betis verður sýndur beint á Extra 2 á sama tíma. Báðir leikirnir verða svo sýndir á Sýn síðar um kvöldið - að loknum leik Hull og Chelsea í enska deildarbikarnum.