Viðskipti innlent

Kaupþing sektað í Svíþjóð

Kaupþing. Miðlari bankans í Svíþjóð er talinn bera ábyrgð á brotum með viðskipti hlutabréfa. Bankinn var sektaður um um tæpar tvær milljónir króna vegna málsins.
Kaupþing. Miðlari bankans í Svíþjóð er talinn bera ábyrgð á brotum með viðskipti hlutabréfa. Bankinn var sektaður um um tæpar tvær milljónir króna vegna málsins. Mynd/Stefán

Aganefnd OMX-kauphallarinnar í Svíþjóð hefur sektað Kaupþing þar í landi um 200 þúsund sænskra króna, um tæpar 1,9 milljónir íslenskra króna, vegna brota á tilkynningaskyldu og misræmis á verði hlutabréfa. Brotin ná til fimmtán færslna með bréf í einu félagi. Einn miðlari Kaupþings er talinn bera ábyrgð á brotunum.

Færslurnar eru allar í sænska félaginu Nordic Mines AB, sem skráð er á First North-hlutabréfamarkaðinn hjá OMX-samstæðunni, og voru framkvæmdar í janúar og febrúar á þessu ári.

Í tilkynningu frá OMX segir að rannsókn á málinu hafi leitt í ljós að gögn um viðskiptin hafi skort auk þess sem misræmis hafi gætt í viðskiptum með þau. Hins vegar er tekið fram að erfitt sé að glöggva sig á málinu þar sem viðskiptin hafi ekki verið færð nógu vel til bókar.

Aganefndin telur ennfremur að þótt ekki liggi fyrir hvort brotin hafi verið gerð vísvitandi skorti sönnunargögn til að sýna fram á það. Brotin eru eftir sem áður alvarleg og brýtur í bága við almenn kauphallarviðskipti, að mati nefndarinnar. Því hafi verið ákveðið að sekta bankann auk þess sem starfsmaðurinn sem hlut á að málinu hafi fengið ávítur frá hendi Fjármálaeftirlits Svíþjóðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×