Barcelona og Getafe spila fyrri leik sinn í udanúrslitum spænska konungsbikarsins á miðvikudagskvöldið og verður leikurinn sýndur beint á Sýn klukkan 18:25. Bernd Schuster, þjálfari smáliðs Getafe, segist vonast eftir kraftaverki á Nou Camp.
Getafe vann góðan 3-0 sigur á Villarreal í deildinni um helgina, en fyrir leikinn hafði liðið ekki unnið sigur í sjö leikjum í röð. Smáliðið hefur þegar slegið lið eins og Valencia og Osasuna út úr keppninni og Schuster vonast til að bæta Evrópumeisturunum á þann lista.
"Það var gott að ná sigri í deildinni fyrir leikinn í Barcleona og við förum þangað fullir sjálfstrausts. Barcelona er klárlega sigurstranglegra, en við vonumst eftir kraftaverki. Allt getur gerst í fótboltanum," sagði Schuster.
Brasilíski snillingurinn Ronaldinho verður væntanlega ekki með Barcelona í leiknum á miðvikudagskvöldið, en hann er með sýkingu í hálsi. Þeir Eto´o, Messi, Eiður Smári og Saviola verða þó allir klárir í slaginn og gaman verður að sjá hvort landsliðsfyrirliðinn fær loksins tækifæri með liðinu eftir langa veru á bekknum. Hinn undanúrslitaleikurinn í Konungsbikarnum er viðureign Deportivo og Sevilla, en sá leikur er á dagskrá á fimmtudagskvöldið og verður einnig sýndur beint á Sýn.