Marco Materazzi, hinn umdeildi varnarmaður Inter Milan, er sannfærður um að lið sitt hampi meistaratitlinum þar í landi í ár. Hann segir að 2-3 sigrar í viðbót muni fara langt með að tryggja meistaratitilinn, en Inter hefur unnið 15 leiki í röð í deildinni til þessa.
"Tveir eða þrír sigrar í viðbót og þá höfum við náð markmiði okkar," sagði Materazzi í gær. Inter hefur 11 stiga forystu á Roma þegar langt er liðið á tímabilið á Ítalíu og segir Materazzi að leikmenn liðsins hafi hug á því að skrá sig í sögubækurnar.
"Við viljum slá enn fleiri met en við höfum þegar gert og gera árangur okkar á þessum tímabili algjörlega einstakan. Það sem okkur vantar eru titlar í Evrópu," segir Materazzi, en Inter mætir Valencia í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í næstu viku. Inter féll einmitt 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra þegar liðið beið lægri hlut fyrir öðru spænsku liði - Villerareal.
"Valencia og Villareal eru ekki ósvipuð lið og við verðum að gleyma óförunum frá því í fyrra til að ná árangri nú. Ef við komumst í gegnum þá hindrun sem Valencia er eigum við alla möguleika á að fara alla leið í Meistaradeildinni."