Lothar Matthaeus, fyrrum fyrirliði Bayern Munchen og þýska landsliðsins, segist hafa mikinn áhuga á að taka við meisturum Bayern ef tækifærið býðst. Matthaeus er nú þjálfari Red Bull Salzburg í Austurríki.
"Auðvitað myndi ég stökkva til ef ég fengi tækifæri til þess að þjálfar Bayern. Ég er öllum hnútum kunnugur í Þýskalandi og á sterkar rætur þar. Það hlýtur hver að sjá að draumur minn er að þjálfa í þýsku úrvalsdeildinni," sagði Matthäus í samtali við þýska blaðið Bild, en blaðið hafði einnig eftir bráðabirgðaþjálfara liðsins Ottmar Hitzfeld að Matthäus ætti eflaust eftir að taka við liðinu einn daginn.